Færsluflokkur: Matur og drykkur

Ingibjörg, Geir og Foie Gras....nammi namm

Já nú er sko tilefni til að gleðjast; Samfó og Sjálstó farin að draga sig saman. Það er eina vitið. Við hjónin álítum það næga ástæðu til að fá okkur Foie Gras-pönnusteikt með eplum, grænum pipar og 25 ára Balsamic ediki og dreypa á kampavíni með og þá að sjálfsögðu Bollinger (þetta er ekki auglýsing Grin).  Framundan eru spennandi tímar.

images[6]


Kynóðir steinaldarmenn

Mig grunaði nú alltaf Fred og Vilmu um  smá villimennsku í rúminu en come on kynlífsþrælar og hópkynlíf! En eitt er á hreinu ég tæki Venus frá Milo fram yfir Venus Steingellu. 
mbl.is Steinaldarmenn lifðu fjörugu kynlífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saltfiskur á katalónsku

Þorskurinn er konungur fiskana sem veiðast hér um slóðir að mínu mati. En það er ekki fyrr en á síðustu árum sem hann hefur hlotið þá virðingu í íslenskum eldhúsum sem hann á skilið. Sem er kannski vegna þess að við átum ýsu á meðann nánast allur þorskurinn og saltfiskurinn var fluttur út og aflaði landi og þjóð mikilla tekna. Ennþá er það þannig að besti þorskurinn er seldur til útlanda, það er líka vegna þess að við erum ekki tilbúin að borga sama verð fyrir hann og aðrar þjóðir.

Ég er ansi hrædd um að margir geri sér ekki grein fyrir því hvað t.d. gott  hnakkastykki af þorski er ótrúlega góður matur, hann  slær  hvaða steik sem er út af borðinu. Svo er líka svo mikið þægilegra að melta hann. 

images[2]

Saltfiskur á katalónsku:

  • 800-1000 gr. útvatnaður saltfiskur  
  • 150 gr. þistilhjörtu
  • 1 stk. rauðlaukur saxaður
  • 1 stk. gul paprika smátt skorin
  • 4 hvítlauksrif söxuð
  • 3 stilkar rósmarín ferskt
  • 2 dl. gæða ólífuolía
  • 2 ½ dl. maukaðir tómatar frá Cirio
  • 1 dl. hvítvín 
  • 4 sneiðar stökt steikt bacon (má sleppa)

                                                                                                                                             

Helmingurinn af olíunni er hitaður á pönnu og rauðlaukurinn og hvítlaukurinn er látin gyllast í olíunni.  Síðan er papriku og rósmarín bætt útá, látið malla aðeins. Þá er hvítvíninu hellt útá og látið sjóða aðeins niður, síðan tómatmaukinu bætt við og látið malla í nokkrar mín. við vægan hita. Restinni af olíunni er bætt útí og sósan sett til hliðar. 

Saltfiskurinn er tekin og steiktur á roðhliðinni í stutta stund þ.e.a.s. brúna roðið aðeins.

Sósan er sett í botninn á eldföstu móti og saltfisknum raðað þar ofan á með roðhliðina upp. Þistilhjörtum er raðað með og piprið svo eftir smekk.  Stungið í ofn á 190° hita í 10 mín. eða þar til fiskurinn er tilbúinn. Stráðið saxaðri steinselju yfir og brjótið baconið yfir þennan gómsæta mat.

Þennan rétt er gott að bera fram með góðri kartöflumús eða soðnum kartöflum.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                               


Lúða fyrir lúða........Omega 3 bætir geðheilsuna

Ja há ég vissi það! En núna er það staðfest af mér menntaðra fólki að omega-3 fitusýrur hafa góð áhrif á heilastarfsemina og þá sérstaklega þau svæði sem hafa með tilfinningar að gera og bæta þar af leiðandi geðið (fyrir utan allt hitt)!  Þarna höfum við það. Núna ætlar Kidda að gúffa fisk sem aldrei fyrr svo hún verði hvers manns hugljúfi. Lúða var fórnalamb gærdagsins og í kvöld verður það saltfiskur.....

IMG_2944   LÚÐA fyrir tvo LÚÐA

500g lúðusteikur þverskornar eða flök, 1 dl vínkjarnaolía eða ólífuolía (ekki extra virgin-of mikið bragð), 2 hvítlauksrif, 2 tsk saxaður ferskur engifer, 1/2-1 búnt ferskur kóríander saxaður, 1-2 stk rauð chilli aldin skorin í sneiðar, salt og pipar.

Skellið olíunni og öllu hinu dótinu nema fisknum og chilli í mixer eða matvinnsluvél og maukið vel saman. Bragðbætið olíuna með salt og pipar, hún á að vera fallega græn og fersk. Hellið þessu yfir fiskinn og skellið chilli sneiðunum með. Leifið þessu að marinerast í um 20 mín í kæli. Eldið fiskinn í u.þ.b. 10 mín (eða þar til hann er tilbúnn-fer eftir þykkt) í 180°C heitum ofni eða skellið honum á grillpönnuna eða jafnvel grillið ef þið eruð í stuði. Berið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

 

 

 


Linguine með sítrónu og Grana Padano

Birti þessa uppskrift með góðfúslegu leyfi Yndisauka. Eldaði þennan rétt um daginn og vá hvað hann var góður, var alveg búin að gleyma því hvað gott pasta er GOTT. Það er í lagi að nota Parmesan, yfirleitt erfitt að finna Grana Padana hér um slóðir.

images[8]Hér kemur ein af þessum ótrúlega einföldu og góðu uppskriftum sem aldrei klikka. Hún útheimtir litla fyrirhöfn og kitlar alltaf bragðlaukana. Það er mikið atriði að nota gott pasta í þessa uppskrift. Linguine er heiti á pastategund sem líkist tagliatelle (flatir strimlar) en er þó fíngerðara. Grana Padano ostur er svipaður og parmesan ostur en er ekki eins bragðsterkur og tilvalinn í matargerð. Osturinn fær ekki á sig parmesan stimpilinn þar sem hann er ekki framleiddur í Parma, en um leið er hann mun ódýrari.aaa

Munið að skola sítrónurnar vel áður en þið rífið börkinn af þeim eða nota lífræna sítrónu.

  • 500g linguine  De Cecco
  • 150g ruccola, saxað í þunnar ræmur (eða fersk basillauf)
  • 2 msk. sítrónubörkur, fínt saxaður (bara gula ytri börkinn, ekki hvíta innan á)
  • 2 stk. hvítlauksrif, fínt söxuð
  • 2 stk. rauðtt chilli, kjarnhreinsað og saxað í þunnar ræmur
  • 2 msk. sítrónuolía
  • 6-8 msk. gæða jómfrúarólífuolía
  • 100g Grana Padano ostur, fínt rifinn

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum þar til það er al dente og látið renna vel af því.

Hitið helminginn af ólífuolíunni á pönnu og  rétt gyllið sítrónubörk, chilli og hvítlauk í henni. Takið pönnuna af hitanum og hellið restinni af ólífuolíunni og sítrónuolíunni út á. Hellið olíunni yfir pastað og blandið ruccolanu og helmingnum af ostinum vel saman við. Smakkið til með salti og pipar og stráið restinni af ostinum yfir áður en pastað er borið fram.


Gómsætur kjúklingur....

Ég er eiginlega búin að fá nóg af kjúklingabringum. Kjúklingur er nýja ýsan, það finnst mér. Þegar ég var krakki var ýsa á boðstólnum fimm daga í viku (í minningunni a.m.k.) en núna er það fjöldaframleiddur fyðurfénaður, hann er allavega alltaf til í ískápnum á mínu heimili.

Um daginn náði ég þó að framreiða blessaðar kjúklingabringurnar á sæmilegan hátt, allaveganna gaf hún Guðbjörg mín fæðunni næst hæðstu einkun.

IMG_3090Fylltar kjúklingabringur með sætum kartöflum:

2 stk kjúklingabringur (skinnlausar), 2 lúkur* spínat, 1 lúka sellerí í þunnum sneiðum, 1 rif saxaður hvítlaukur, 100g franskur geitaostur, 1 msk ólífuolía, 2 tsk hlyn síróp, sjáfarsalt og nýmalaður pipar.  

*ég er með stórar krumlur Blush     

Hitið olíuna á pönnu við vægan hita og steikið hvítlaukinn og selleríið þar til það er mjúkt og ilmandi. Bætið spínatinu út á pönnuna ásamt smá salti og steikið það þar til það er alveg orðið mjúkt. Ef að mikill vökvi myndast á pönnunni er best að leifa grænmetinu að malla aðeins á meðan hann gufar upp. Britjið svo ostinn yfir pönnuna og látið hann bráðna saman við grænmetið, bragðbætið með salti og pipar og látið kólna aðeins.          Leggið bringurnar á skurðarbretti, rekið beittan hníf inn í þykkari endann á bringunum, þannig að hálfgerð göng myndast, passið að reka hnífinn þó ekki alveg í gegn um kjúklinginn. Fyllið bringurnar með ostafyllingunni, leggið þær í eldfast fat og hellið sírópi yfrir bringurnar, bakið í 200°C ofni í 25-30 mín. eða þar til kjúklingurinn er tilbúin. Notið soðið af bringunum sem sósu.

1 stk stór sætkartafla, skrölluð og skorin í 2-3 cm sneiðar, lagðar í eldfast fat, ólífuolíu sullað aðeins yfir ásamt salti og pipar og nokkrum greinum af fersku timian. Bakið í 200°C heitum ofni í um 20 mín.

Mæli með að hlusta á Dusty Springfield á meðan eldamennskan fer fram, þá sérstaklega lögin Windmills of you mind og I close my eyes and count to ten.


Að leika sér...........

Í gærkvöld kom loksins að því að ég dreif mig í keilu, það er búið að standa til í u.þ.b. þrjú ár!!!! Ég er nefnilega svakalega skotin í keilu svona í huganum, hef ekki spilað oft. Síðast fór ég fyrir um tíu árum þá 18 ára. Ekki draga þá áliktuna að ég sé svona svakalega Amerísk stelpa það er ekki málið, leikir eru bara eitthvað svo heillandi. Svo er keila víst upprunnin í Egyptalandi.

Sem sagt þá var það keila, þythokkí, fótbolltaspil og fleira sem ég fékkst við í gærkvöldi með nokkrum útvöldum einstaklingum. Það var magnað!! 

Í miðjum klíðum rann það upp fyrir mér að ég hef nánast ekkert leikið mér í mörg ár, það sama var upp á teningnum hjá félögum mínum, hvað er málið! Eftir að ég varð "fullorðin" hafa flesti "leikir" með vinum og kunningjum snúist í kringum mat og drykk, sem er gott og blessað og nánast alltaf gaman. En í gær þarna í keiluhöllinni var ég algerlega á staðnum, ég gleymdi mér alveg í því að leika mér. Vinnan,  reksturinn, fjölskyldan, peningamál og allt hitt, gott og vont, var langt langt í burtu.

Ég næ nefnilega ekki að "tæma hugan" í ræktini (þegar ég fer) eða í göngutúrum, þvert á móti, þá hugsa ég fyrir allann peninginn (og kann við það) og stundum fæðast einhverjar smart hugmyndir. Kannski er þetta ofvirkniseinkenni að finna slökun í því að hamast í einhverjum leikjum, ef svo er þá það.

Einnig er eitthvað svo merkilegt að vera með fólki sem manni þykir vænt um og vera að gera eitthvað saman en á þess að vera að tala, pæla, plotta eða slúðra, bara að leika sér, hlæja og fagna eða urra, njóta leiksins eins og alvöru krakkar kunna svo vel.

Þannig að: þetta er nýjasta markmiðið mitt; KiddaPlu ætlar að vera dugleg að leika sér eins og alvöru krakki.      Kannski ég plati einhverja út í brennó í kvöld?


Holl og góð uppskrift

IMG_3003Er að rembast við að lifa heilsusamlegu lífi þessa dagana og borða rétt, vanalega borða ég hollan og góðan mat en er bara soldið kræf í sykrinum á kantinum, það er mín veikasta hlið. Batnandi mönnum er best að lifa! Setti þessa uppskrif inn á heimasíðu Yndisauka í dag og því ekki að láta hana hingað líka. Það sem meira er þá gerði ég u.þ.b. 100 stk. af þessu buffum í dag og leið alveg eins og kaþólskri mömmu (10 barna) í Írskri bíómynd.

Því ekki að vera svolítið heimilislegur og búa til sín eigin grænmetisbuff!  Buffin í þessari uppskrift eru algert lostæti og hægt að njóta þeirra með ýmiskonar meðlæti. Svo er líka svo gott að vita alveg upp á hár hvað er í matnum sem maður er að borða!

  • Buff:
  • 1 dós kjúklingabaunir eða 250 g soðnar kjúklingabaunir
  • 150 g soðnar kartöflur
  • 150g soðnar sætarkartöflur
  • 180g blaðlaukur
  • 2 stk hvítlauksrif
  • 2 tsk söxuð steinselja
  • 2 msk Indverskt Dukkah
  • 2 msk kartöflumjöl
  • 2 msk sítrónusafi
  • 1 tsk chilli mauk
  •  smá hafsalt og nýmalaður pipar

 

  • Rasp:
  • 1 dl Indverskt Dukkah
  • 1/3 dl Kartöflumjöl

Aðferð: Stappið kartöflurnar og kjúklingabaunirnar lauslega saman. Saxið blaðlaukinn frekar gróft, saxið steinseljuna og hvítlaukinn. Setjið svo allt saman í matvinnsluvél og bætið við kartöflumjölinu, Dukkah og sítrónusafanum og kryddið aðeins með salt og pipar. Látið vélina vinna á lágri styllingu þannig að úr verður frekar gróft deig. Mótið svo 10 buff úr deginu og velltið þeim upp úr raspinum. Látið buffin hvíla í um 30 mín í kæli áður en þau eru steikt. Steikið þau í um 3 mín á hvorri hlið. Berið fram með t.d. salati, hýðisgrjónum og jógúrtsósu. Verði ykkur að góðu.


    Reykingabannið

    Mogginn er með umfjöllun um fyrirhugað reykingabann á veitingahúsum í blaðinu í dag. Það er mín tilfinnig að flestir veitingamenn séu á móti banninu, allavega eru all flestir á móti því sem rætt hefur verið við opinberlega undanfarna mánuði. Ég er hins vegar sannfærð að þetta mun verða blessun fyrir alla veitngastaðina, viðskiptavinina og síðast en ekki síst starfsfólkið. Til dæmis gekk þetta upp hjá Mokka á skólavörðustígnum og þar var nú reykt, hvað er þá að óttast?

     Í umfjölluninni er talað við góðvin minn Jakob Jakobsson veitingamann á Jómfrúnni og hann segist vera á móti banninu en hann sé þó þegar farinn að gera ráðstafanir. Þær eru t.d. að bjóða starfsfólki sínu (sem flest allt reykir) á reykinganámskeið hjá Krabbameinsfélaginu til að aðstoða þau við að hætta. Gott og blessað, það hljómar vel en afhverju fyrst núna? Þetta er allt heiðursfólk sem á bara hið besta skilið.

    Reykingar ræna mann heilsunni og hinum mjög svo dýrmæta tíma. Að reykja eina sígarettu tekur u.þ.b. 4 mín sé hraðinn hafður á. Segjum sem svo að starfsmaðurinn X reyki 10 stk sígarettur á hverri átta tíma vakt, það gera a.m.k. 40 mín á dag, það eru svo 800 mín. á mánuði!! Ekki sinnir maður kúnnunum með rettuna í munnvikinu og ekki púar maður yfir pottana, hugsanlega gæti maður smókað sig í bókhaldinu, það væri helst þar.  Þannig að flestir starfsmenn sem reykja eru kannski ekki að gera neitt annað af "viti" á meðan. Þetta þykir mér léleg nýting á vinnutíma. Og svo er það blessuð heilsan, það er marg sannað að reykingar hafa skaðleg áhrif á heilsuna og það hlýtur að hafa áhrif á alla þætti lífs reykingafólks, líka vinnuna. Svo bætist grátt ofan á svart hjá honum X okkar að á vinnustaðnum verður hann einnig fyrir töluverðum óbeinum reykingum á degi hverjum og þær eru einnig skaðlegar.

    Ég verð að halda því til haga að ég er enginn engill, ég er sjúk í sígarettur undir vissum kringumstæðum, þá aðallega þegar ég fæ mér vínglas og breytist í stórreykingakonu ef þau eru fleiri en þrjú. Dags daglega reyki ég hins vegar ekki. Þetta er mjög hallærislegt og ég hef oft reynt að koma þessari hálf-reykingarfíkn minni fyrir kattarnef en hef ég ekki náð að sigra í þeirri baráttu!

    Undanfarin ár hef ég hins vegar rekið mig á það og reykingamönnum hefur fækkað verulega mikið og mér líður oft eins og síðasta móhíkananum. Svo er það líka prinsip hjá mér að stunda ekki "frumkvöðlareykingar" það er að vera ekki fyrsta manneskjan til að kveikja í rettu í samkvæmum og nokkrum sinnum hefur það gerst að ég hef siglt reyklaus í gegnum samkvæmi einfaldlega vegna þess að það reykti enginn. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hlakka til bannsins, þá mun ég neyðast til að hætta þessum fáránlega ósið!!


    PESTÓ-KJÚKLINGUR MEÐ INVERSKUM LAUK

    Brighton 2006 028 PESTÓ-KJÚKLINGUR MEÐ INVERSKUM LAUK

    Þessi réttur er gasalega lekker miðvikukostur og alveg hægt að þola hann um helgar. Ég er stolltust af lauknum, hef alltaf verið brjáluð í laukinn á Austur Indíafélaginu sem er borinn fram með ýmsum réttum þar. Þetta er mín stæling af honum...........bara að ég ætti Tandori ofn, nei annars þá væri ég alltaf rauð og sveittí framan.

    KJÚKLINGURINN 600g kjúklingalaundir eða bringur skornar í strimla,  2 dl basilpestó,  1/2 dl hlynsíróp.         Pestóinu og sírópinu er blandað saman og kjúklingurinn marineraður í blöndunni í um 30 mín. Eldið svo fuginn í ofni eða á pönnu í um 20 mín. eða þar til hann er tilbúinn. Á meðan er laukurinn græjaður.

    LAUKURINN 4 stk laukur, safinn úr 1/2 sítrónu, 1 tsk hafsalt, 1 tsk turmeric (má sleppa en þá verður laukurinn ekki jafn fallegur), 2 msk smjör.              Snirtið laukinn og skerði hann í tvennt, skerið hann svo í "báta". Bræðið smjörið á pönnu, ekki of heitri svo að smjörð brenni ekki, bætið lauknum út á og svissið hann þar til hann fer aðeins að mýkjast, hellið svo sítrónusafanum út á laukinn og skellið turmeric-inu saman við og hrisstið þetta allt saman. Látið lok á pönnuna og hækkið aðeins hitann á pönnunni og látið þetta malla svona í um 5 mín. Útkoman á að vera ilmandi og sætur laukur sem allir geta hámað í sig, líka laukhatararnir (loooooosers). 

    Best að bera þennan mat fram með hrísgrjónum og stolti.

     


    Næsta síða »

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband